Óska eftir tillögum frá íbúum við gerð fjárhagsáætlunar

Íbúum Suðurnesjabæjar gefst nú kostur á að senda inn ábendingar og tillögur vegna vinnu við fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2026. Hægt er að senda inn ábendingar til og með 10.nóvember.
Suðurnesjabær leitar nú til íbúa og hvetur þá til að koma á framfæri hugmyndum og sjónarmiðum sem geta nýst við mótun fjárhagsáætlunar næsta árs. Markmiðið er að tryggja að raddir íbúa heyrist og að áherslur bæjarins endurspegli þarfir samfélagsins.
Ábendingar geta snúið að tillögum til hagræðingar, nýjum verkefnum eða málaflokkum sem leggja þarf sérstaka áherslu á, segir í tilkynningu.
Til að auðvelda íbúum að koma sínum sjónarmiðum á framfæri hefur verið sett upp ábendingaform vegna fjárhagsáætlunargerðarinnar. Þar geta íbúar valið milli mismunandi málaflokka, sett inn ábendingar, rökstuðning og athugasemdir.
Opið er fyrir innsendingar til 10.nóvember.
Flokkarnir sem um ræðir eru:
Umhverfis- og skipulagsmál
Íþrótta- og tómstundamál
Leikskólar og dagvistun
Velferðarþjónusta
Rekstur, skattar, stjórnsýsla og álagning
Menningarmál
Grunnskólar
Annað
Allar ábendingar verða teknar til skoðunar milli umræðna um fjárhagsáætlun af bæjarstjórn Suðurnesjabæjar í nóvember.
Hlekkur á ábendingaformið: Hvar má splæsa og hvar má spara í fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar 2026



















