Nýjast á Local Suðurnes

Nafnaval á sameinað sveitarfélag frestast – Æskilegt að íbúar fái tíma til að meta tillögurnar

Nafnanefnd, sem skipuð var til að undirbúa tillögur að nýju nafni á sameinað sveirfélags Garðs og Sandgerðis telur mikilvægt að valið verði nýtt nafn á sameinað sveitarfélag, sem íbúar geta sameinast um. Þá er ljóst að atkvæðagreiðsla um nafnavalið muni frestast fram yfir páska.

Í ljósi þess að óskað var eftir nýrri umsögn hjá Örnefnanefnd hefur áætluð tímalína vegna vals á nafni á sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Garðs raskast. Upphaflega var áætlað að atkvæðagreiðsla færi fram fyrir páska. Að mati nafnanefndarinnar er æskilegt að íbúar fái góðan tíma til að vega og meta tillögur að nýju nafni.

Því hefur verið ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni fram í apríl. Kynning á tillögum að nöfnum fer fram þegar umsagnarferli Örnefnanefndar er lokið.

Nefndin kallaði eftir tillögum frá almenningi og bárust 392 tillögur. Heitin Garður og Sandgerði og Sandgerðingar og Garðmenn verða að líkindum notuð áfram yfir byggðakjarna og íbúa þess, segir í tilkynningu frá nefndinni, en hið nýja nafn verður stjórnsýsluheiti sveitarfélagsins.

Í ljósi þess var ákveðið að tillögur sem vísa til eldri heita sveitarfélaganna komi ekki til álita, svo sem tengingar við Sandgerði, Garð, Gerðahrepp eða Miðneshrepp.

Við yfirferð tillagna var jafnframt horft til viðmiða Örnefnanefndar, en sú nefnd þarf að veita jákvæða umsögn um tillögur að nöfnum á sveitarfélög.

Nafnið skal samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Æskilegt er út frá málfræðisjónarmiðum að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélaganna endi til dæmis á -hreppur, -bær, – kaupstaður, -byggð, -þing o.s.frv., en sveitarstjórnarlögin gera hins vegar ekki þá kröfu.

Nafnið skal tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. Ef nafn sem óskað er staðfestingar á tengist einnig svæði sem ekki tilheyrir viðkomandi sveitarfélagi er gerð krafa um að viðkomandi sveitarfélag nái yfir meirihluta þess svæðis sem nafnið tengist og að meirihluti íbúa svæðisins búi í því sveitarfélagi. Jafnframt liggi fyrir að önnur sveitarfélög á svæðinu sem kunna að tengjast nafninu mótmæli því ekki sérstaklega að nafnið verði notað af sveitarfélaginu.