Nýjast á Local Suðurnes

Gosið ekki haft nein áhrif í Svartsengi

Níunda eldgosið, sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt, hefur engin áhrif haft á starfsemi orkuversins í Svartsengi og er rekstur eðlilegur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en þar segir að vaktmenn hafi fært sig yfir í Reykjanesvirkjun skömmu eftir miðnætti þegar viðvörunarlúðrar fóru af stað. Um svipað leyti var neyðarstjórn fyrirtækisins virkjuð og fylgist hún grannt með framvindu eldgossins.

Viðvörunarkerfi hannað af HS Orku, sem mælir borholuþrýsting í Svartsengi og nýtt hefur verið af Veðurstofunni í mati á yfirvofandi eldgosum, sendi frá sér viðvörun um hálf tvöleytið í nótt.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur heimilað starfsmönnum að snúa aftur til vinnu í Svartsengi.

Mynd: HS Orka