Ekki sátt um breytt akstursfyrirkomulag við Hólagötu

Akstursfyrirkomulagi um Hólagötu í Njarðvík hefur verið breytt í kjölfar áskorana íbúa við götuna vegna mikils gegnumaksturs þegar bílstjórar stytta sér leið þegar umferð um Njarðarbraut er þung. Götunni hefur verið lokað fyrir miðju, til móts við Reykjanesapótek.

Íbúar við nærliggjandi götur virðast hinsvegar ekki eins ánægðir með breytingarnar, ef marka má umræður í íbúhópum samfélasmiðla, en þeir búast við að umferð muni aukast á álagstímum. Þá eru þeir sem eiga erindi í fyrirtæki við götuna heldur súrir þar sem ekki er aðstaða til að snúa bílum við í kringum lokunarpóst.

Tillagan var send í grenndarkynningu á sínum tíma þar sem flestir íbúar við götuna tóku tillögunni fagnandi. Það sama er hinsvegar ekki hægt að segja um fyrirtækjaeigendur, en Reykjanesapótek og Kökulist sendu frá sér sameiginlega athugasemd, þar sem fram kom að lokun götunnar myndi valda umferðaröngþveiti, mögulega slysahættu og skerða þjónustustig fyrirtækjanna.