Nýjast á Local Suðurnes

Brugðist við manneklu með ráðningum og starfshópur skipaður

Menntaráð Reykjanesbæjar telur að bregðast þurfi við þeirri stöðu sem upp hefur komið í leikskólum Reykjanesbæjar þar sem skerða hefur þurft þjónustu vegna manneklu.

Málið var rætt á fundi ráðsins og kom þar fram að samkvæmt upplýsingum leikskólafulltrúa hefur þó eingöngu þurft að skerða þjónustu ítrekað í einum leikskóla Reykjanesbæjar á árinu 2025, Stapaleikskóla. Þegar hefur verið brugðist við þeim vanda með því að ráða inn tvo nýja starfsmenn.

Við mat á umfangi og eðli vandans er mikilvægt að horfa sérstaklega til ársins 2025 þar sem breytingar á skipulagi leikskólastarfs tóku gildi 1. janúar þar sem teknir voru upp skráningardagar í vetrarfríum og í dymbilviku. Þær breytingar, sem unnar voru af starfshópi skipuðum af menntaráði, miðuðu að því að bregðast við vanda vegna mönnunar og bæta starfsaðstæður í leikskólum sveitarfélagsins.

Í ljósi þeirra áskorana sem samt sem áður hafa raungerst, telur menntaráð rétt að endurskoða verklagsreglur um viðbrögð við undirmönnun í leikskólum. Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem fari yfir verklagið með heildstæða greiningu að leiðarljósi og leggi mat á hvort þörf sé á breytingum eða úrbótum, segir í fundargerð ráðsins.

Lagt er til að í hópnum verði leikskólafulltrúi, mannauðsfulltrúi, kjörnir fulltrúar í menntaráði, fulltrúi leikskólastjóra, fulltrúi leikskólakennara, fulltrúi starfsfólks leikskóla og fulltrúi foreldra leikskólabarna. Stefnt er að því að hópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir lok september í síðasta lagi.