Auka öryggi og bæta skilvirkni í landamæraeftirliti

Á dögunum hófst innleiðing á nýju komu- og brottfararkerfi Schengen-svæðisins (Entry/Exit System – EES). Innleiðing kerfisins fer fram samtímis í öllum Schengen-ríkjum, að Kýpur undanskildu, og er gert ráð fyrir að það verði að fullu tekið í notkun á öllum ytri landamærum Schengen-ríkjanna í lok mars 2026.

Í tilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu segir að markmiðið sé að auka öryggi og bæta skilvirkni í landamæraeftirliti með samræmdri skráningu á för fólks yfir landamæri. Með komu- og brottfararkerfinu verður unnt að fá betri yfirsýn yfir dvöl einstaklinga frá ríkjum utan Schengen-svæðisins, draga úr misnotkun á dvalarheimildum og auðvelda framkvæmd frávísana og brottvísana.

Innleiðing kerfisins hefur engin áhrif á ferðafrelsi Íslendinga og annarra ríkisborgara Schengen-ríkjanna, né þeirra sem hafa heimild til lengri dvalar innan svæðisins. Markmiðið er að tryggja örugga og skilvirka för fólks án þess að skerða réttindi þeirra sem ferðast löglega innan svæðisins.

Komu- og brottfararkerfið er hluti af stærra heildarumhverfi snjallra landamæralausna sem stuðla að auknu öryggi í Evrópu og styrkja alþjóðlegt lögreglusamstarf í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi, mansali, vopnasmygli og hryðjuverkum.

Ísland tekur virkan þátt í samstarfi við erlendar löggæslustofnanir og Landamærastofnun Evrópu (Frontex). Með innleiðingu nýrra landamærakerfa mun þetta samstarf styrkjast enn frekar með aukinni upplýsingamiðlun og styttri boðleiðum, þvert á landamæri, segir í tilkynningunni.

Undirbúningur að innleiðingu komu- og brottfararkerfisins á öllu Schengen-svæðinu hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Þar sem nokkur aðildarríki voru ekki tilbúin til að hefja fulla notkun kerfisins, var ákveðið á vettvangi Evrópusambandsins að taka það í notkun í áföngum frá og með 12. október 2025.

Kerfið verður að fullu tekið í notkun á öllum ytri landamærum í mars 2026.