Nýjast á Local Suðurnes

Afmælisveislan verður styrktarkvöld fyrir Heiðu Hannesar

Hermann Ragnarsson múrarameistari verður sextugur þann 22. ágúst næstkomandi sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Hemmi Ragnars eins og hann er jafnan kallaður hefur ákveðið að afþakka afmælisgjafir og halda styrktarkvöld, þar sem gestum gefst kostur á að styrkja Heiðu Hannesdóttur með frjálsum framlögum, en Heiða hefur sem kunnugt er glímt við mikil veikindi eftir að hafa fengið hjartastopp árið 2012.

Skemmtidagskráin á afmælis- og styrktarkvöldinu verður ekki af verri endanum en á meðal þeirra sem koma fram eru uppistandarinn Ari Eldjárn, Eurovisionfarinn Friðrik Dór, töframaðurinn Einar Einstaki auk þess sem Arnar Dór, Helgi Már og Máni Björgvins munu koma fram með tónlistaratriði.

Örvar Kristjánsson verður veislustjóri og mun kvöldið enda með frábærum dansleik fram á nótt með Ölmu Rut og hljómsveitinni Alaska.

Á Facebook-síðu sem sett hefur verið upp í tengslum við styrktarkvöldið segir meðal annars:

“Öllum er velkomið að koma, og þá sérstaklega vinir, kunningjar og fjölskylda Hemma Ragnars og Heiðu Hannesar. Boðið verður upp á fljótandi veitingar og snarl á meðan byrgðir endast en einnig verður barinn opinn allt kvöldið með frábær tilboð.”

Afmælisveislan og styrktarkvöldið verður haldið á skemmti- og veitingastaðnum SPOT, Kópavogi, laugardagskvöldið 22.ágúst. Húsið opnar kl.20:00.