Töpuðu gríðarlegum fjármunum fyrir uppsögn samnings

Lagardère travel retail ehf., sem rak mathöllina Aðalstræti, Bakað-kaffihús, Loksins Café & Bar, KEF Diner og Sbarro á Keflavíkurflugvelli tapaði 1.349 milljónum króna á síðasta ári. Fyrirtækið sagði upp samningi sínum við Isavia um mitt þetta ár.
Þetta kemur fram í úttekt Viðskiptablaðsins, en þar segir að hagnaður tveggja ára þar á undan hafi numið á milli tvö- og þrjú hundruð milljónum á ári. Þá segir að í ársreikningi fyrirtækisins komi fram að mikið rekstrarlegt rask hafi hlotist af breytingum á veitingasvæði Keflavíkurflugvallar árið 2024, þar sem lokun og uppsetning nýrra veitingastaða mörkuðu árið. Undir lok árs hafi félagið hætt rekstri á arðbærum veitingastöðum og opnað nýja staði samkvæmt forskrift og útboði Isavia.
Einnig kemur fram í ársreikningi að heildarsala á hvern farþega hafi lækkað um 17%, úr 526 krónum árið 2023 í 437 krónur árið 2024. Reksturinn var þá orðinn ósjálfbær á árinu 2024 og horfur slæmar.





















