Nýjast á Local Suðurnes

Tinna enn týnd – Formlegri leit hætt

Formlegri leit að hundinum Tinnu hefur nú verið hætt en eigendur hennar, Andrea Björnsdóttir og Ágúst Ævar Guðbjörnsson munu þó halda leitinni áfram. Tinna týndist sem kunnugt er á gamlársdag, þar sem hún var í pössun í Reykjanesbæ.

Andrea segir að stuðningurinn, sem hún hefur notið, sé ómetanlegur og nefnir sem dæmi, í samtali við Vísi.is, að kona sem hafði ofnæmi fyrir hundum hefði farið að leita með börnunum sínum.

„Fólk er sumt að leita langt fram á nótt og alla daga. Það er ótrúlegt. Þó að ég sé að verða úrkula vonar þá rígheld ég í vonina. Ég efast um að ég geti hreinlega hætt að leita og ég hef ekki enn mætt í vinnuna. Ágúst er farinn að vinna aftur en tíminn einfaldlega stoppar. Það er bara eitt sem kemur til greina hjá mér og það er að finna Tinnu. Þegar það gerist má heimurinn fara að snúast á ný.“ Segir Andrea.