Point tekur við verslun í komusal KEF

Stefnt er að því að ný verslun Point á Keflavíkurflugvelli opni að hluta í nóvembermánuði, en fram að því verður starfrækt pop-up verslun sem mun bjóða upp á helstu nauðsynjar; kaffi, drykki, nasl og tilbúna kalda rétti. Verslunin var áður rekin af 10/11.
Verslunin mun í framhaldinu stækka umtalsvert og verður boðið upp á ferðavörur, gæðakaffi frá Kaffitári, snarl, drykki, ferskt brauðmeti, pizzur og önnur matvæli.

Verslun Point er rekin af alþjóðlega fyrirtækinu SSP sem sérhæfir sig í rekstri veitingastaða og hefur meðal annars rekið Jómfrúna og Elda á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við íslenskt veitingafólk frá árinu 2022. Þá rekur SSP yfir 2.600 staði um heim allan. Fyrr á árinu opnaði Point tvær verslanir inni í flugstöðinni, aðra á verslunar- og veitingasvæði flugvallarins og hina á fyrstu hæð við D-hliðin.