Rekstur Samkaupa, sem selt var til Skeljar fjárfestingafélags í júlí síðastliðnum, hefur verið sveiflukenndur undanfarin ár, en félagið hefur hagnast og tapað á víxl. Félagið er eftir söluna rekið undir nýstofnaði samstæðu Dranga hf., en undir þeim hatti eru einnig Orkan, Löður, Lyfjaval og Atlaga og er áætluð velta samstæðunnar um 75 milljarðar króna í ár.
Samkaup hefur undanfarin ár velt um 40 milljörðum króna á ari, en sveiflur hafa verið töluverðar í rekstri félagsins, þannig hagnaðist félagið um 461 milljón árið 2021, en tapaði um 190 milljónum árið eftir, það ár fór eiginfjárhlutfall félagsins í 15% miðað við 19% árið á undan. Afkoman batnaði svo á ný árið 2023 og félagið snéri tapinu frá árinu áður í um 270 milljón króna hagnað. Síðasta ár kom svo mjög illa út rekstrarlega, er félagið tapaði um 910 milljónum króna.
Uppsagnir og vefverslun lokað
Í aðdraganda kaupa Skeljar á Samkaup var farið í töluverðar hagræðingaraðgerðir, sem standa enn yfir, en í júní var 22 af 56 starfsmönnum á skrifstofu fyrirtækisins sagt upp störfum og nýlega var vefverslun fyrirtækisins, sem var ein sú stærsta í matvöru á landinu lokað. Ekki hefur þó verið gripið til uppsagna starfsfólks í verslunum fyrirtækisins enn sem komið er.
Auður Daníelsdóttir, nýráðinn forstjóri Samkaupa, sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að í ljósi áskorana í rekstri félagsins hafi verið tekin ákvörðun um tímabundna lokun netverslunar fyrir matvöru á meðan unnnið er að því að einfalda reksturinn. Þá sagði Auður það vera stefnu nýrra eigenda að efla félagið enn frekar, veita góða þjónustuupplifun og enn betri gæði.
Vegferðin að viðsnúningi hafin
Það er ánægjulegt að koma inn í rekstur Samkaupa, sagði Auður, enda félagið með langa sögu, frábært starfsfólk og trausta viðskiptavini um allt land. Við sjáum mikil og jákvæð tækifæri með þessum kaupum til að skapa eitt hagkerfi sem myndar heildræna lausn fyrir viðskiptavini. Áherslur okkar snúa að ánægju starfsfólks og viðskiptavina, hagkvæmni í rekstri ásamt skýrri vegferð, sagði Auður.
Auður Daníelsdóttir, forstjóri Samkaupa
Vegferðin að viðsnúningi félagsins er hafin með það fyrir augum að veita einfalda og góða þjónustu og þar með að skila góðum rekstri. Eins og áður hefur komið fram var tap félagsins umtalsvert á síðasta ári og því mikilvægt að rýna kostnaðarliði með hagræðingaaðgerðum svo sem einföldun ferla, samræmingu þjónustusamninga og samnýting á tæknilausnum.
Það er því tilhlökkun hjá okkur að efla reksturinn með áherslu á ánægju starfsfólks og viðskiptavina, sagði Auður.
Ekkert ákveðið með Prís
Aðspurð um mögulega breytingu á verslunum Nettó yfir í Prís, sem einnig er í eigu Skeljar fjárfestingarfélags, og hefur mælst ódýrasta verslun landsins frá opnun, sagði Auður það vera til skoðunar hvaða tækifæri eru til staðar með hag viðskiptavina í fyrrarúmi en það liggur ekki fyrir í dag hvar verslun númer tvö verður opnuð.