Margt að skoða á ókeypis Safnahelgi

Margt verður á boðstólum helgina 11.–12. október þegar Safnahelgi á Suðurnesjum fer fram. Þá bjóða sveitarfélögin á Suðurnesjum landsmönnum að heimsækja fjölbreytta flóru safna, setra og sýninga.

Sérstakur opnunarviðburður og kynningarfundur Safnahelgar verður haldinn þriðjudaginn 7. október kl. 10:00 í Gula húsinu við íþróttamannvirkin í Grindavík. Þar verður sýnd stuttmynd sem dregur upp mynd af áhrifum hamfaranna á líf íbúa bæjarins. Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, opnar Safnahelgina formlega og Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur, kynnir hugmyndir um uppbyggingu viðkomustaða fyrir ferðamenn.

Alla dagskrá má nálgast á safnahelgi.is. Meðal viðburða má nefna fjölbreyttar sýningar og leiðsagnir um öll Suðurnes, ljóðaupplestur, myndlistarsýningar og fjölskylduvæna dagskrá fyrir börn.

Fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi og er verkefnið styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Aðgangur að Safnahelginni er ókeypis og eru gestir hvattir til að taka fjölskylduna með sér í ferðalag um svæðið og uppgötva það sem söfn, setur og sýningar á Suðurnesjum hafa upp á að bjóða.