Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til að bæjarfulltrúum verði fækkað

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar lagði fram til fyrri umræðu tillögu að breytingum á samþykktum um stjórn og fundarsköp Grindavíkurbæjar á síðasta fundi sínum. Tillagan felur í sér að bæjarfulltrúum fækki úr sjö í fimm, frá og með næstu sveitarstjórnarkosningum.

Einnig er gert ráð fyrir því að innviðanefnd og samfélagsnefnd starfi áfram að loknum kosningum þar til ný bæjarstjórn ákveður annað fyrirkomulag.

Til þess að samþykktin öðlist gildi þarf að ræða hana tvisvar í bæjarstjórn. Bæjarstjórn mun líklega taka málið aftur fyrir á fundi sínum í lok september.

Á fundinum var einnig lagt fram lögfræðiálit sem unnið var að beiðni forsætisráðuneytisins um tilgreind álitaefni vegna kosningaréttar og kjörgengis í sveitarstjórnarkosningum í Grindavíkurbæ vorið 2026.

Undir þeim lið bókaði bæjarstjórn eftirfarandi:

Bæjarstjórn telur álitsgerðina vera skýra um helstu álitaefni um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Grindavík. Bæjarstjórn telur best að kosningar fari fram í Grindavík samkvæmt óbreyttum lögum og að ekki séu sett sérlög um kosningarétt og kjörgengi í Grindavíkurbæ.

Ekki liggur fyrir hver niðurstaða málsins verður en það verður unnið áfram á vettvangi forsætisráðuneytisins og Grindavíkurbæjar.