Hjallastefnan segir upp samningum við Reykjanesbæ

Hjallastefnan hefur sagt upp samningum um rekstur tveggja leikskóla, Valla og Akurs í Reykjanesbæ frá og með 1. desember 2025. Hjallastefnan hefur séð um rekstur leikskólanna í tæpa tvo áratugi.
Rekstur leikskólans Akurs færist yfir til Sigrúnar Gyðu Matthíasdóttur, núverandi leikskólastýru, frá og með 1. ágúst 2025, segir í tilkynningu. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á daglegu skólastarfi sem börn og foreldrar verða vör við.
Reykjanesbær mun taka við rekstri leikskólans Vallar frá 1. október 2025. Skólinn verður rekinn í samræmi við aðra leikskóla sveitarfélagsins og lögð verður áhersla á faglega og vel skipulagða yfirfærslu í náinni samvinnu við Hjallastefnuna, stjórnendur og starfsfólk leikskólans. Hulda Björk Stefánsdóttir leikskólastýra á Velli mun áfram leiða skólastarfið.
Þegar horft er til hagsmuna barna og barnafjölskyldna er það sameiginleg sýn aðila, að í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á samfélagi sveitarfélagsins, að rekstur fjölmenningarskóla líkt og Völlur er sé í höndum Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær leggur ríka áherslu á skýra upplýsingagjöf til starfsfólks, foreldra og annarra hagsmunaaðila varðandi næstu skref. Markmið sveitarfélagsins er að tryggja stöðugleika í skólastarfinu og velferð barnanna sem sækja leikskólana, segir í tilkynningunni.