Nýjast á Local Suðurnes

Frá ritstjóra: Er lítið um hæft starfsfólk í Reykjanesbæ?

Frétt Local Suðurnes sem birt var í gær um útsvarsgreiðslur yfirmanna hjá Reykjanesbæ vakti töluverða athygli en þar kemur fram að mjög fáir af þeim sem þiggja hæstu launin hjá sveitarfélaginu halda þar lögheimili og greiða þar með útsvar sitt annars staðar.

Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að undanfarið ár eða svo hefur Reykjanesbær staðið í miklum skipulagsbreytingum, sérstaklega hvað varðar yfirstjórn sveitarfélagsins og eins og gengur og gerist hefur fólki verið sagt upp störfum í ferlinu og nýtt fólk ráðið.

Heimamönnum sagt upp og utanbæjarfólk ráðið

Reykjanesbær  er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins með rétt rúmlega  40 milljarða skuldir á bakinu, því er nokkuð ljóst að sveitarfélagið þarf á öllum þeim tekjum að halda sem mögulegt er að næla í. Eins og flestum ætti að vera kunnugt er útsvarið helsti tekjustofn sveitarfélaga.

Undanfarið ár eða svo hefur nokkrum yfirmönnum sem hafa lögheimili í Reykjanesbæ verið sagt upp störfum og nýjir ráðnir í staðinn, flestir af þeim sem ráðnir voru í störfin hafa lögheimili skráð í öðrum sveitarfélögum.

Ráðningar í opinber störf

Það er nú einu sinni þannig að einkafyrirtæki hafa svigrúm til að ráða ættingja sína og vini í laus störf og forðast það fólk sem þeim líkar ekki við af einhverjum ástæðum.  Almennt er ekki heimilt að byggja á slíkum persónulegum skoðunum þegar teknar eru ákvarðanir af hálfu opinberra aðila.

Opinberum stofnunum  ber að leitast við að ráða hæfasta fólkið út frá hinum ýmsu forsendum til að vinna í þágu almennings. Ráðningarferlið miðar því að því að hæfasti umsækjandinn um starfið verði ráðinn í það hverju sinni.

Undirritaður efast ekki um hæfni þess fólks sem ráðið hefur verið  í yfirmannastöður hjá Reykjanesbæ á undanförnum misserum, þvert á móti er þetta án efa hæft og gott fólk, en það hljómar engu að síður nokkuð undarlega að forsvarsmenn sveitarfélags sem kvarta sáran undan því að það vanti hálaunastörf til sveitarfélagsins, meðal annars til að auka útsvarstekjur, ráði svo utanbæjarfólk í hæst launuðustu störfin.

Af 80 umsækjendum voru fáir hæfir úr Reykjanesbæ

Sveitarfélög hafa  töluvert svigrúm þegar kemur að reglum um ráðningar í opinber störf og Reykjanesbæ ætti að vera í lófa lagið að sýna gott fordæmi og ráða heimafólk í vel launaðar stöður þar sem það á við – Það er kannski ekki hægt í öllum tilfellum en í meirihluta tilfella ætti það að vera hægt.

Það voru tæplega 80 umsækjendur um störf fimm sviðsstjóra hjá Reykjanesbæ auk hafnarstjóra þegar störfin voru auglýst síðastliðinn vetur, enn fleiri ef staða mannauðsstjóra er tekin með í dæminu, þar af fjöldi heimafólks – Það hljóta að hafa verið hæfir einstaklingar með þá menntun og reynslu sem til þarf, sem halda lögheimili í Reykjanesbæ á meðal þessara umsækjenda.