Nýjast á Local Suðurnes

Fjölga ferðum milli Keflavíkur og Moskvu

Rússneska flugfélagið S7 mun fjölga ferðum úr einni í tvær í viku á milli Moskvu og Keflavíkurflugvallar næsta sumar. Frá þessu er greint á vef Túrista.

Í frétt Túrista kemur fram að ekki komi á óvart að flugfélagið taki upp þráðinn næsta sumar því flugið fékk góðar viðtökur í sumar og munu fjölmargir Íslendingar hafa nýtt sér það í tengslum við ferðir á leik íslenska karlalandsliðsins í Rússlandi síðastliðið sumar. Að sama skapi fjölgaði rússnesku ferðafólki hér á landi um 14 prósent í sumar samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Þotur S7 munu fljúga frá Keflavíkurflugvelli rétt fyrir miðnætti á miðvikudögum og laugardögum í sumar og lenda þoturnar í Moskvu í morgunsárið.