Nýjast á Local Suðurnes

Æfðu fjöldabjörgun úr sjó í Keflavíkurhöfn

Landhelgisgæslan, samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum (AECO) og leitar og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi, efndu til ráðstefnu og viðbragðsæfingar í Reykjanesbæ þar sem björgunarmál tengd siglingum skemmtiferðaskipa á norðurslóðum voru til umfjöllunar.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, setti ráðstefnuna á þriðjudagsmorgun og bauð gesti velkomna. Í ávarpi sínu ræddi Georg um mikilvægi þess að viðbragðsaðilar sem og útgerðir skemmtiferðaskipa þekktu styrkleika og veikleika hvor annars til þess að viðbrögð við atvikum tengdum skemmtiferðaskipum, sum kunna að koma upp yrðu eins fumlaus og kostur er. Flutt voru ýmis erindi þar sem gestir fengu fræðslu um áherslur hvers ríkis og helstu áskoranir, m.a frá bandarísku strandgæslunni, dönsku herstjórninni, kanadísku strandgæslunni, skemmtiferðaskipaiðnaðinum og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Á ráðstefnunni gafst þátttakendum einnig kostur á að fræðast um atvik sem hent hafa á undanförnum árum, heyra hvernig úr þeim var leyst og bera saman bækur sínar.

Landhelgisgæslan hefur unnið ötullega að undirbúningi þess ef bregðast þarf við atviki þar sem skemmtiferðaskip lendir í vanda. Á næstu vikum stendur Landhelgisgæslan fyrir tveimur æfingum, annarri með farþegaskipinu Norrænu á Seyðisfirði og fjöldabjörgunaræfingu í samvinnu við aðra íslenska viðbragðsaðila og útgerðir hvalaskoðunarfyrirtækja þar sem fjöldabjörgun fólks á sjó verður æfð.

Í morgun fór fram æfing áhafnar varðskipsins Freyju og Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Keflavíkurhöfn þar sem gestum ráðstefnunnar var sýnt hvernig fjöldabjörgun fer fram úr sjó. Æfingin gekk vel en afar þýðingarmikið er að auka þekkingu allra sem að verkefninu koma svo nýta megi hana til að bæta verklag við björgunaraðgerðir.