Nýjast á Local Suðurnes

Víðir á toppi þriðju deildar eftir stórsigur – Reynir og Þróttur töpuðu

Heil umferð var leikin í þriðju deildinni í knattspyrnu í dag, Víðismenn úr Garði eru eina Suðurnesjaliðið sem er með fullt hús stiga en liðið vann öruggan 4-0 sigur á liði KFR á Nesfisk-vellinum í Garði, þar sem Helgi Þór Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Víði og Milan Tasic og Tómas Jónsson sitt markið hvor. Víðismenn byrja því Íslandsmótið af krafti, liðið hefur ekki fengið á sig mark í sumar og skorað átta og er í efsta sæti deildarinnar með 9 stig eftir þrjá leiki.

Sandgerðingarnir í Reyni tóku á móti Kára á heimavelli í dag. Reynismenn komu knettinum tvisvar sinnum í mark andstæðingana en þurftu að hirða knöttinn fjórum sinnum úr eigin marki. Slök byrjun Reynismanna á Íslandsmótinu hefur komið á óvart en liðið er stigalaust í einu af neðstu sætum deildarinnar eftir þrjá leiki.

Þróttarar úr Vogum töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu í dag, en þeir léku á útivelli gegn Einherja. Lokatölur leiksins urðu 3-2, en Vogamenn halda þó sæti í efri hluta deildarinnar með 6 stig eftir þrjá leiki.