Nýjast á Local Suðurnes

Erlendir kennarar heimsóttu leikskólann Holt – Leiðir til fjölbreyttara leikskólastarfs

Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ hefur undanfarið ár tekið þátt í samstarfsverkefni fjögurra landa, svokölluðu Erasmus+ verkefni, sem meðal annars gengur út á að vinna með börnum í öllu sem tengist lýðræði og læsi.

Nokkrir kennarar á vegum leikskólans fóru síðasta haust til Póllands og kynntu sér starfsemi leikskóla þar, nokkrir fara næsta haust til Spánar og svo fer síðasti hópurinn til Slóveníu vorið 2017. Í síðustu viku var komið að Holti að taka á móti erlendum gestum, 13 kennarar frá þremur löndum heimsóttu leikskólann í svokallað “Teacher training event in Iceland”.

Erlendu gestirnir kynntu sér starfsemi leikskólans

Erlendu gestirnir kynntu sér starfsemi leikskólans

Kennararnir á Holti höfðu í nógu að snúast, segir í frétt á heimsíðu leikskólans, þeir héldu námskeið fyrir gestina um útinám og könnunaraðferðina, fóru í ferðir, sund og bláa lónið, út að borða og buðu heim til sín í mat svo dæmi séu tekin.

Þá kemur fram í fréttinni að vikan hafi verið afar lærdómsrík og kennarar og nemendur á Holti hafi heldur betur bætt í reynslubankann.

Börnin okkar tóku gestunum einstaklega vel og fengu gjafir frá gestunum á föstudaginn þar sem börnin kvöddu gestina formlega.

Það sem kennarar geta lært af umræðum sín á milli, þrátt fyrir menningar- og aðstöðumun, er t.d. að geta séð eigin skóla í nýju ljósi, fengið hugmyndir að aðferðum í vinnu með börnum sem leiðir til fjölbreyttara leikskólastarfs. Segir á heimasíðu leikskólans.