Nýjast á Local Suðurnes

Ljósanótt: Andlit bæjarins er Ljósanætursýningin í ár

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar er að þessu sinni unnin í samstarfi við Ljósop, félag áhugaljósmyndara og nefnist Andlit bæjarins.

Upphaflega varð verkefnið til eftir áramót 2015 þegar Ljósop ákvað að setja upp litla sýningu fyrir Safnahelgi á Suðurnesjum sem haldin var í mars síðastliðnum. Þeir byrjuðu að prufumynda og þróa stílinn strax í janúar, og á Safnahelgi voru þeir komnir með ca. 20 myndir sem voru til sýnis.

“Við byrjuðum á því að mynda vini og vandamenn en fórum fljótlega að hafa upp á fólki/karakterum sem gaman væri að mynda. Suma fundum við í kirkjunni, aðra í Sporthúsinu og úti á götu. Auk þess mynduðum við gesti sem komu til okkar á Safnahelginni. Bæjarbúar hafa tekið verkefninu mjög vel, og aðsóknin í myndatöku verið vonum framar! Verkefnið hefur svo spurst út smám saman og eftir að óskað var eftir þátttöku fólks á Facebook hefur það aldeilis undið upp á sig. Verkefnið hefur mikið og skemmtilegt sögulegt gildi, þá sérstaklega fyrir komandi kynslóðir, segir á heimasíðu Ljósanætur.”

Það hefur verið stefna Listasafnsins að á Ljósanætursýningunni sé heimafólk í fyrirrúmi og hafa listamennirnir hverju sinni tengst Reykjanesbæ með einum eða öðrum hætti. Að þessu sinni eru hvoru tveggja viðfangsefnin og ljósmyndararnir heimafólk og því öruggt að sýningin á eftir að vekja mikla athygli.

Ljósop er einn af menningarhópum Reykjanesbæjar og hefur ávallt staðið fyrir skemmtilegum sýningum á Ljósanótt og þannig lagt sitt af mörkum til öflugs menningarlífs bæjarins og nú í sýningarsal Listasafnsins í Duus safnahúsum.

Alls voru 514 bæjarbúar ljósmyndaðir auk þess sem bætt verður við myndatökum á Ljósanótt, það verður kynnt betur þegar nær dregur á vefsíðu verkefnisins.