Um 800 manns starfa í Grindavík

Samkvæmt nýrri könnun sem framkvæmd var af atvinnuteymi Grindavíkurbæjar þann 8. október sl. voru um 800 manns að störfum í Grindavík þann dag. Könnunin var framkvæmd til að öðlast betri innsýn í umfang atvinnurekstrar í bænum. Fyrirtæki sem vitað var að væru með starfsemi í Grindavík fengu senda könnun.

Flestir voru við störf í ferðaþjónustu eða 357 og svo í sjávarútvegi og fiskeldi, eða rétt tæplega 300. Fjöldi þeirra sem hefur verið við störf í sveitarfélaginu hefur aukist jafnt og þétt, um nokkra tugi manns á mánuði og um 5% frá því í janúar þegar 760 manns sóttu vinnu í Grindavík.

Könnunin náði eingöngu til þeirra starfsmanna sem mæta til vinnu í Grindavík, en ekki þeirra sem vinna fyrir grindvísk fyrirtæki utan sveitarfélagsins. Einnig eru starfsmenn fyrirtækja með skráð aðsetur utan Grindavíkur ekki taldir með, svo sem verktakar sem vinna við varnargarða eða utanaðkomandi þjónusta fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi.