Tími til að endurskoða hverfisvernd á Fitjum

Það er mikilvægt að við verndum náttúru og menningarminjar – en sú vernd á að byggja á gildum forsendum. Þegar svæði fær hverfisvernd, felur það í sér að framtíðarnýting þess er takmörkuð, oft með þeim rökum að þar sé sérstakt náttúru- eða menningargildi sem beri að varðveita. En hvað ef þessi forsenda er ekki til staðar?
Á Fitjum í Reykjanesbæ hefur stórt svæði fengið hverfisvernd – hluti af svæðinu er í raun og veru hvorki náttúrulegt né verðmætt í þeim skilningi sem verndin á að þjóna. Þetta er gamalt uppfyllingarsvæði, áður fjara sem náði upp að Njarðarbraut, en hefur um áratugaskeið verið notað sem tipp, þar sem m.a. steypustöð dældi afgöngum sínum í. Í dag er þarna drullupollur og órækt. Er virkilega skynsamlegt að vernda slíkt svæði?
Þegar nauðsynlegt er að byggja upp innviði og bæta samgöngur í ört vaxandi sveitarfélagi eins og Reykjanesbæ, verðum við að skoða skipulag út frá raunverulegum þörfum og gæðum. Þarna mætti í staðinn byggja upp svæði fyrir verslun og þjónustu, sem myndi styrkja atvinnulíf, skapa störf og bæta þjónustu við íbúa.
Hringtorgið – staðsetning sem skiptir máli
Þá er einnig vert að beina sjónum að fyrirhugaðri staðsetningu hringtorgs við Fitjabakka og Njarðarbraut. Þeirri staðsetningu ætti að endurskoða. Betra væri að færa hringtorgið að Bergási og tengja það við Fitjabraut í gegnum fyrrnefnt svæði. Það myndi bæta flæði í
umferð og stytta leiðir fyrir íbúa og þjónustuakstur.
Það er eðlilegt og rétt að skora á Umhverfis- og skipulagsráðið (USK) að endurskoða þessa
hverfisvernd og staðsetningu hringtorgsins. Við þurfum stefnu sem byggir á raunveruleikanum – ekki gömlum misskilningi eða sjálfvirkri verndun á svæðum sem hafa hvorki náttúru- né notagildi í nútímasamhengi.
Reykjanesbær á að horfa fram á við. Við eigum ekki að festa dýrmætt byggingarland í festu vegna hverfisverndar sem þjónar hvorki náttúru, samfélagi né hagkvæmri uppbyggingu.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af tillögu af hringtorgi við Bergás og gömul mynd af sama svæði frá 1978.



Mynd: Græni punkturinn sýnir staðsetningu verslunar Olís á Fitjum.
Guðmundur Þórir Ingólfsson