Skoða kaup á snjómoksturstæki fyrir gervigrasvöll

Reykjanesbær hefur til skoðunar að kaupa snjómoksturstæki til hreinsunar á gervigrasvelli, en foreldrar ásamt iðkendum og stjórnendum hafa séð um snjóhreinsun eftir að verktaki sagði upp samningi.

Hafþór Barði Birgisson, framkvæmdastjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar, sagði í stuttu spjalli við blaðamann að til skoðunar væri að kaupa tækjabúnað til verksins, sem einnig gæti þá nýst til snjómoksturs á öðrum svæðum eins og bílastæðum við íþróttahús bæjarins. Aðspurður um hitalagnir undir vellinum og hvort þær virkuðu sagði Hafþór svo vera, en að slíkar lagnir hreinsuðu aldrei allan snjó ef magnið væri mikið.

Alexander Ragnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn, lagði fram bókun á dögunum þar sem fram kom þau verkfæri sem sem notuð eru nú geti verið skaðleg fyrir gervigrasið. Beiðni liggur fyrir að skoðað verði að fjárfesta í eigin tæki, sem gæti nýst að auki við snjómokstur á fleiri stöðum.