Óska eftir hugmyndum um þróun Vatnsholts

Reykjanesbær óskar eftir hugmyndum íbúa um þróun Vatnsholtsins á næstu árum.
Vatnsholtið hefur tekið breytingum á undanförnum áratugum þar sem unnið hefur verið markvisst að ræktun og uppbyggingu grænna svæða. Samstarf Reykjanesbæjar og Skógræktarfélags Suðurnesja hófst formlega árið 1996 þegar aðilar undirrituðu samkomalag um skógrækt á svæðinu.
Nú stendur fyrir dyrum nýr áfangi í þróun Vatnsholtsins. Áætlað er að Skógræktarfélag Suðurnesja afhendi Reykjanesbæ svæðið 16. júní 2026 og í tengslum við það hefur verið ákveðið að hefja vinnu við að móta framtíðarstefnu fyrir svæðið.
Reykjanesbær biður íbúa að koma á framfæri hugmyndum og sjónarmiðum um mögulega þróun Vatnsholtsins á næstu árum. Hugmyndavefurinn verður opinn dagana 13.–23. nóvember og geta íbúar sent inn eins margar hugmyndir og þeir vilja.
Fjölskyldur eru hvattar til að ræða saman um framtíð svæðisins, til dæmis yfir matarborðinu eða í göngutúr, og leggja svo fram sameiginlegar hugmyndir ef áhugi er fyrir hendi. Slík samtöl geta hjálpað til við að móta fjölbreyttar og praktískar tillögur.
Markmiðið er að safna ábendingum sem nýtast við gerð framtíðarsýnar og skipulags svæðisins þegar því verður skilað til sveitarfélagsins árið 2026.




















