Opna Stapaskólasundlaug fyrir almenning

Ný almenningssundlaug opnar í Stapaskóla á morgun, föstudaginn 20. júní. Um er að ræða glæsilegt mannvirki á efri hæð IceMar-hallarinnar, sem tekin var í notkun á síðasta ári.
Aðstaðan samanstendur af 25 metra innisundlaug sem hentar jafnt til íþróttaiðkunar sem og almennrar sundiðkunar. Utandyra er rúmgott pottasvæði þar sem finna má bæði heita og kalda potta. Einnig er þar að finna gufubað og infrarauðan klefa sem stuðla að bættri heilsu og vellíðan gesta.

Á opnunarhátíð klukkan 16:00 mun bæjarstjóri flytja ávarp, klippt verður á borða og börn hoppa í laugina. Í boði verður kaffi, djús og kaka fyrir gesti. Sundlaugin opnar svo fyrir almenning klukkan 17:00 og verður opin til 21:30.