Nýjast á Local Suðurnes

Mjög góð afkoma hjá Suðurnesjabæ

Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2024 var samþykktur samhljóða eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 7.maí 2025. Niðurstöður ársreikningsins fela í sér mjög góða afkomu og mun jákvæðari en fjárhagsáætlun 2024 gerði ráð fyrir. 

Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs var jákvæð að fjárhæð 322 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 69 milljónir. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A-og B hluta var jákvæð að fjárhæð 376 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu 67 milljónir króna. 

Rekstrartekjur í A hluta bæjarsjóðs voru alls 6.744 milljónir og í samanteknum reikningi A-og B hluta 7.177 milljónir.  Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði í A hluta var 701 milljónir, eða 10,39% af rekstrartekjum og í samanteknum reikningi A-og B hluta 911 milljónir eða 12,69%. 

Samkvæmt rekstrarniðurstöðu ársins uppfyllir Suðurnesjabær jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga, þar sem samantekin rekstrarniðurstaða þriggja ára er jákvæð.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.