Milljóna kostnaður Reykjanesbæjar vegna breytinga hjá landsbyggðarstrætó

Svör Vegagerðarinnar vegna bókunar bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 25. september síðastliðnum varðandi breytingar á áætlun og stoppistöðvum landsbyggðarstrætó voru til umræðu á síðasta fundi bæjarráðs.
Ljóst er að bæjarráð er ekki sátt við breytingarnar enda munu íbúar sveitarfélagsins illa geta nýtt strætóinn til og frá höfuðborginni snemma á morgnanna og seint á kvöldin, auk þess sem strætó mun ekki stoppa á Ásbrú.
þá munu breytingar, sem ráðast þarf í á áætlun innanbæjarstrætó, vegna þessa kosta sveitarfélagið um 15 milljónir króna á ári.
Bæjarráð bókaði á ný um málið og fól bæjarstjóra að vinna það áfram.
Bókun bæjarráðs:
„Þegar kemur að leið 55 sem ekur á milli höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélaganna á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvallar, vill bæjarráð koma enn og aftur á framfæri vonbrigðum sínum með breytingu Vegagerðarinnar á leiðakerfum landsbyggðastrætósins 55.
Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að markmið með breytingum á leiðakerfi hafi verið að aðlaga kerfið að breyttum þörfum notenda og að aðkallandi hafi verið að undirbúa leiðakerfið fyrir orkuskipti. Vísað er til stefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur þar sem kemur fram að „Almenningssamgöngur innan einstakra sveitarfélaga eru á forræði þeirra.“ Miðað við þá stefnu telst akstur leiðar 55 innan Reykjanesbæjar sem innanbæjarakstur og því ákveðið að fækka stoppistöðvum úr átta í tvær en auk þess mun fjöldi ferða með BSÍ á endastöð fækka úr átta ferðum niður í fimm á virkum dögum, frá og með 1. janúar 2026.
Með breytingunum geta íbúar Reykjanesbæjar illa nýtt strætóinn til og frá höfuðborginni snemma á morgnanna og seint á kvöldin.
Strætó 55 fækkar stoppistöðvum úr átta í tvær og hættir að stoppa í Ásbrú sem er 5.000 íbúa hverfi. Kostnaður fyrir Reykjanesbæ við að bæta við morgunakstri frá kl. 06-07 kostar okkur 15 milljónir árlega en horfast þarf í augu við það að tekjur Reykjanesbæjar eru 13% lægri en meðaltal sjö stærstu sveitarfélaganna.
Hér er um að ræða skort á mikilvægri þjónustu fyrir fjórða stærsta sveitarfélag Íslands og vísað í stefnu stjórnvalda um áreiðanlegri samgöngur. Þetta skýtur skökku við þegar framlög til almenningssamgangna hækkuðu um 2,3 milljarða milli 2024 og 2025 en helstu breytingarnar snéru að aukinni þjónustu í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins með styttri ferðatíma og lengri þjónustutíma. Áherslur á landsbyggðina og samfélögin þar mæta hér afgangi og við í Reykjanesbæ hörmum þessa ákvörðun Vegagerðarinnar.“




















