Nýjast á Local Suðurnes

Listasafn Reykjanesbæjar tekur nýtt merki í notkun

Listasafn Reykjanesbæjar hefur tekið í notkun nýtt merki sem endurspeglar nánasta umhverfi safnsins og sérstöðu þess.

Safnið leitaði til Kolofon hönnunarstofu, sem er í eigu Harðar Lárussonar grafísks hönnuðar, vegna reynslu þeirra af vinnu með listasöfnum. Nýja merkið dregur innblástur sinn frá klettum, sjó og fuglalífi , náttúruþáttum sem umlykja safnið og mynda sérstakan karakter staðarins, segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.

Meginmarkmiðið með nýju merki var að skapa sterkt og auðþekkjanlegt sjónrænt auðkenni sem nýtist vel í ólíkum miðlum, hvort sem er á prentuðum efniviði, varningi eða í stafrænum birtingum. Þá var lögð áhersla á sveigjanleika í hönnuninni, þannig að hægt sé að aðlaga merkið að mismunandi sýningum og fagurfræði þeirra listamanna sem sýna.