Gera alvarlegar athugasemdir við framkvæmd á snjómokstri

Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemd við framkvæmd Vegagerðarinnar á snjómokstri í Suðurnesjabæ. Að mati bæjarráðs kemur sú staða upp og oft að þjóðvegirnir í sveitarfélaginu mæta afgangi í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.
Þetta kemur fram í harðorðri bókun bæjarráðs í kjölfar lokunar á vegum í sveitarfélaginu á miðvikudagsmorgun, þar sem snjómokstri var verulega ábótavant.
Bókunin í heild:
Að morgni miðvikudagsins 29.október lokaðist Sandgerðisvegur og sömuleiðis vegurinn milli Sandgerðis og Garðs, vegna þess að ekki hafði farið fram snjómokstur Vegagerðarinnar á þessum leiðum. Þær aðstæður komu upp að allar leiðir til og frá Sandgerði voru lokaðar vegna ófærðar. Þetta er ekki fyrsta skipti sem svona ástand skapast, vegna þess að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar er ekki framkvæmd eins og vera ber. Það ástand sem skapaðist í morgun var mjög alvarlegt, margir íbúar komust hvorki til né frá til sinna starfa og til náms, auk þess sem fjöldi fólks komst ekki leiðar sinnar til starfa í Flugstöð og aðrir komust ekki í áætlað flug. Þá kom þetta mjög illa við atvinnulíf og ýmsa þjónustu í sveitarfélaginu þar sem starfsfólk og þjónustuaðilar komust ekki um vegina. Öllu alvarlegra er að við þessar aðstæður er öryggi íbúanna stefnt í hættu, hvorki sjúkrabílar né slökkviliðsbílar gætu komist á vettvang ef atvik kæmu upp þar sem þyrfti á þjónustu viðbragðsaðila að halda.
Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemd við það hvernig framkvæmd Vegagerðarinnar á snjómokstri er í Suðurnesjabæ. Allt of oft kemur sú staða upp að þjóðvegirnir í sveitarfélaginu mæta afgangi í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og er það með öllu óásættanlegt fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Bæjarráð krefst þess að Vegagerðin tryggi eðlilega vetrarþjónustu í Suðurnesjabæ þannig að ekki komi aftur upp þær aðstæður sem voru að morgni 29.október 2025.




















