Einn fluttur á spítala eftir árekstur á Reykjanesbraut

Einn var fluttur til skoðunar á Landspítalann í Fossvogi til skoðunar eftir árekstur á Reykjanesbraut klukkan rétt fyrir fimm í morgun.
Frá þessu er greint á vef mbl.is, en þar segir Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, að ekið hafi verið á mannlausa bifreið sem var kyrrstæð úti í kanti á brautinni. Talið er að sú bifreið hafi staðið þar um nokkurt skeið.
Tildrög slyssins eru óljós en höggið var talsvert því kyrrstæða bifreiðin skaust út í móa, valt og endaði á hvolfi. Bifreiðin með ökumanninum í skemmdist líka talsvert. Maðurinn kom sér þó sjálfur úr bifreiðinni en hann er ekki talinn vera alvarlega slasaður. Hann var að aka í átt til Reykjavíkur.