Búist við metfjölda á JBÓ-völlinn

Buist er við að áhorfendamet verði slegið á JBÓ-vellinum í Njarðvík á morgun þegar heimamenn taka á móti grönnum sínum úr Keflavík í seinni undanúrslitaleik liðanna um sæti í Bestu-deildinni á næsta tímabili. Núverandi met er 1500 manns.

Ingi Þór Þórisson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Njarðvíkur segir í spjalli við blaðamann að miðasöla gangi vel og býst við að metið verði slegið.

Njarðvíkingar hafa sent frá sér tilkynningu varðandi mikilvægar upplýsingar fyrir stórleikinn á sunnudag, sem hefst klukkan 14, svo allt gangi að óskum.

Tilkynningin í heild:

Miðasala og skipulag áhorfenda á leikdag:

Miðasala:
Miðasalan sem hafin er á stubbur.is hefur farið vel af stað. Miðaverð í forsölu á Stubb: 3.000 ISK fyrir 16 ára og eldri – frítt fyrir börn. Miðasala við inngang á leikdag: 3.500 ISK 16 ára og eldri – frítt fyrir börn.

Inngangur:
Allir áhorfendur ganga inn á völlinn við Afreksbraut þar sem verða tveir inngangar:
Fyrir miðahafa sem keypt hafa á Stubb + ársmiðahafa.

Skipting áhorfenda:
Unnið er að því að hólfa niður áhorfendasvæði fyrir stuðningsfólk Njarðvíkur og Keflavíkur.

Stuðningsfólk Njarðvíkur verður staðsett að austanverðu (nær Afreksbraut), þar með talið 390 sæti í stúku og í stæðum á pöllum sem settir verða upp. Einnig hafa ársmiðahafar og Njarðmenn kost á því að koma í sal í vallarhúsinu fyrir leik og á meðan leik stendur.

Stuðningsfólk Keflavíkur verður staðsett að vestanverðu, þar með talið 102 sæti í stúku og í stæðum á pöllum.

Við austurenda vallarins fyrir aftan annað markið, næst Afreksbraut, verður hlutlaust svæði þar sem öllum er frjálst að vera óháð stuðningi við lið.

Fjölmiðlaaðstaða:
Milli varamannabekkja verður komið upp sérstakri fjölmiðlaaðstöðu, þannig að helstu fjölmiðlar landsins geti sinnt umfjöllun og gert leiknum góð skil.

Þjónusta og aðstaða:
Veitingasala og salerni verða á báðum endum vallarins. Í boði verða: hamborgarar, pizzur, sælgæti, kaldir og heitir drykkir.
Salurinn í vallarhúsinu verður eingöngu nýttur fyrir ársmiðahafa og Njarðmenn.

Aðgengi fyrir hjólastóla: aðkoma er í gegnum inngang við Afreksbraut og horft á leikinn með aðgengi í gegnum leikmannagöng.

Sjáumst á sunnudaginn, áfram Njarðvík!