Auknar líkur á eldgosi og viðbúnaðarstig hækkað

Veðurstofa telur auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni og hefur því hækkað viðvörunarstig. Tímabilið þar sem auknar líkur eru á gosi getur varað hátt í þrjá mánuði.

Sérfræðingar telja að neðri mörkum kvikusöfnunar verði náð þann 27. september næstkomandi en þá eiga 11 milljónir rúmmetra kviku að hafa safnast fyrir, samkvæmt útreikningum. Spáð er að efri mörkum verði náð þann 18. desember og að 23 milljónir rúmmetra af kviku hafi safnast fyrir þá.

Þegar neðri mörk nást telst svæðið komið inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á kvikuhlaupi eða eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni, segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Áfram er líklegasti upptakastaður eldgoss sá sami á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Fyrirvari verður líklega mjög stuttur líkt og í síðustu gosum eða frá 20 mínútum upp í 4 klukkutíma.