Nýjast á Local Suðurnes

Fyrsta tap Njarðvíkinga – Víðir í fjórða sæti eftir sigur í markaleik

Njarðvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu í ár þegar liðið tók á móti Hetti í annari deildinni í knattspyrnu í gær og Víðismenn skutust upp í fjórða sæti sömu deildar eftir sigur á Sindra í miklum markaleik.

Hattarmenn komu sterkir til leiks í Njarðvík og settu tvö mörk á heimamenn í fyrri hálfleik, á 15. 0g 26. mínútu. Njarðvíkingar sem hafa verið á skotskónum í vetur náðu að setja mark í upphafi síðari hálfleiks, sem var dæmt af þar sem knötturinn fór í hönd eins Njarðvíkingsins eftir darraðadans í teignum. Höttur bætti svo þriðja markinu við rétt fyrir leikslok.

Víðismenn skoruðu fimm mörk og skutust upp í fjórða sæti deildarinnar þegar þeir sóttu Sindra heim. Helgi Þór Jóns­son skoraði tvö marka Víðismanna, Al­eks­and­ar Stoj­kovic, Dej­an Stamen­kovic og Ró­bert Örn Ólafs­son gerðu eitt hver.

Njarðvíkingar eru í öðru sæti deildarinnar með 14 stig og Víðismenn tveimur sætum neðar með 11 stig, eftir sjö umferðir.