Vildu ekki halda Simma Vill í Samkaupspartýinu

Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður hefur greint frá því að hann hafi stigið frá borði úr félagi sem hann átti með með Samkaup, Eldum gott ehf. Fyrirtækið framleiddi tilbúna rétti sem voru seldir í verslunum Samkaupa.

Þetta kom fram í viðtali við Sigmar í morgunþættinum Ísland vaknar, en þar segir Simmi Vill, eins og hann er jafnan kallaður, að eftir eignarhaldsbreytingar á Samkaup, hafi komið í ljós að „þeir vilja ekkert vera í partýi með öðrum, vilja bara stjórna öllu sjálfir, sem ég skil að ákveðnu leyti.“

Kaupréttarsamningur var því virkjaður og Simmi skildi við Eldum gott, sem hann segist sáttur við. „Ég er eiginlega bara verkefnalaus núna, fyrir utan Minigarðinn. Því er stýrt af styrkri og harðri hendi af Vilhelm Einarssyni, þannig að ég svo sem hef ekkert þar að gera dags daglega.“

Gera má ráð fyrir að um hagræðingu í rekstri sé að ræða en ráðist hefur verið í töluverðar hagræðingaraðgerðir eftir samruna Samkaupa við fyrirtæki í eigu Skeljar fjárfestingarfélags, tugum starfsfólks á skrifstofu hefur verið sagt upp störfum og höfuðstöðvar fyrirtækisins fluttar á skrifstofur Prís, sem einnig er í eigu Skeljar í Kópavogi.