Teiknast upp á verri veg á Suðurnesjum

Búast má við að skyggni verði afar slæmt á Reykjanesbraut fram eftir degi, en nýjasta spákort UWC frá Veðurstofunni og gildir frá klukkan 16 gefur til kynna mjög mikla úrkomuákefð á Suðurnesjum og þar með Reykjanesbrautinni.

þetta kemur fram í pistli sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, birtir á Facebook og finna má í heild hér fyrir neðan:

ÓVENJULEG ÚRKOMUÁKEFÐ
Þetta er að teiknast upp á verri veg á Suðurnesjum!
Og snjódýptin er líka þegar óvenjuleg í Reykjavík svo snemma vetrar (sjá neðst).

Nýjasta spákort UWC frá Veðurstofunni og gildir kl. 16 gefur til kynna mjög mikla úrkomuákefð á Suðurnesjum og þar með Reykjanesbrautinni.

Verst er að þetta verðu mjög líklega áfram snjókoma í hita nærri 0°C. Á Reykjanesbrautinni verður skyggnið frá því upp úr hádegi og fram á kvöld samkvæmt þessu varla meira en 100 -200 metrar. Og þó hægur vindur. Nær eingöngu vegna þéttra ofandrífunnar.

Spárit Keflavíkurflugvallar gerir þá ráð fyrir yfir 50 mm úrkomu frá 12 til miðnættis.

Annað spákort sýnir uppsöfnun úrkomu frá kl. 09 til 24. Gefur til kynna 50-75 mm úrkomu. Þetta þykir mikil ákefð á þessum stað og óvenjuleg ! Ekki síst þegar horft er til þess að þetta er ekki rigning samfara hærri hita en nú.

Í framhjáhlupi má geta þess að mæling snjódýptar nú kl. 9 í morgun við Veðurstofuna sýndi 27 sm!

Líklega er það mesta mælda snjódýpt í Reykjavík í október!! Veðurmetafræðingar okkar munu rýna betur í sínar bækur í dag.