Samþykkt að fjölga íbúðum um 18 við Hafnargötu 12

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að senda breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hafnargötu 12 til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.
Samkvæmt nýju skipulagi mun íbúðum fjölga um 18, úr 40 í 58 íbúðir. Nýtingarhlutfall ofanjarðar fer úr 1,0 í 1,8. Nýtingarhlutfall ofan og neðanjarðar fer samtals úr 1,8 í 2,64, en gert er ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu.
Þá bárust umsagnir á auglýsingatíma, meðal annars frá Veðurstofu vegna flóðahættu, en í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs kemur fram að umræddur skipulagsreitur sé 6,5-7 metrum yfir sjávarmáli og jarðhæð húsa er á um meters stalli yfir þeirri hæð, en gólf bílakjallara neðar. Reykjanesbær hefur unnið að því að bæta brimvörn við Ægisgötu undanfarin ár í samstarfi við Vegagerðina og það verkefni er viðvarandi.