Safna fyrir nýjum Hannesi

Unnið er að fjármögnun á nýju björgunarskipi, sem kemur til með að leysa af hólmi gamla Hannes sem nú er í rekstri í Sandgerði. Smíði nýs báts er hluti af nýsmíðaverkefni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem ríkissjóður fjármagnar að hluta á móti Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Björgunarbátasjóðnum í héraði.
Kaupverð skipsins er ekki á hreinu, enn sem komið er, enda langt í að samið verði um smíði skipsins, að sögn Tómasar Loga Hallgrímssonar, Formanns Björgunarbátasjóðs SVFÍ Suðurnesjum.
“Eins og staðan er í dag erum við númer 12 í röðinni í verkefninu. En á dögunum kom til landsins skip númer fimm og er skip númer 6 í smíðum, og búið er að semja um smíði á skipi númer 7 og 8 útí Finnlandi.” Segir Tómas Logi.
“Við gerum okkur grein fyrir því að hér er um langhlaup að ræða, og höfum við tekið ákvörðun um að hefja óformlega söfnun fyrir nýja skipinu. Þar sem við trúum því að því fyrr sem við byrjum því styttra er í að takmarkið náist. Því ekki verður byrjað að smíða skip fyrr en fjármögnun er tryggð.
Það er von okkar að íbúar og fyrirtæki á Suðurnesjum taki vel í þetta verkefni sem við stöndum frammi fyrir.” Sagði Tómas Logi.
Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur, sem fólk er hvatt til að leggja inn á: 517 – 05 – 400059 og kennitalan er 431197 – 2009.




















