Opna eina stærstu Krónuverslun landsins við Fitjabraut

Krónan opnar nýja matvöruverslun á morgun, laugardaginn 23. ágúst, í nýju verslunarhúsnæði við Fitjabraut 5 í Reykjanesbæ. Hin nýja verslun tekur við af minni verslun Krónunnar Fitjum sem lokaði fyrr í vikunni eftir að hafa þjónustað íbúa Suðurnesja frá árinu 2015. Verslunarrýmið við Fitjabraut er rúmir 2.400 fermetrar að stærð og er á meðal stærstu verslunum Krónunnar, auk þess sem hún er ein stærsta matvöruverslun á Suðurnesjum.
Ferskleiki og tímasparnaður í fyrirrúmi
Mikil áhersla verður lögð á að hafa ferskvöru áberandi innan verslunarinnar og verður meðal annars Tokyo Sushi með útibú í hinni nýju verslun. Krónan kynnir einnig nýjung innan Skannað og skundað þar sem viðskiptavinir geta leitað að vöru í Krónuappinu inni í verslun og séð á yfirlitskorti hvar hún er staðsett. Verðmerking vörunnar blikkar þegar notandinn nálgast hana og sparast því mikill tími í leit að réttri vöru. Að auki er verslunin opin frá klukkan 8 á morgnana til 21 á kvöldin til að gera sem flestum kleift að versla í matinn á tíma sem hentar.
Hröð uppbygging og mikil tækifæri á Suðurnesjum
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, er ánægð með að geta loks opnað dyrnar að nýjustu verslun Krónunnar við Fitjabraut. Fyrsta skóflustungan að húsnæðinu var tekin fyrir um tveimur árum og var frá byrjun lagt upp með að hanna verslunina með áherslu á gott flæði og rúma ganga, til að tryggja sem besta upplifun viðskiptavina. Auk Krónunnar verða BYKO og Gæludýr.is með verslanir sínar í sama húsnæði þar sem næg bílastæði og fjöldinn allur af rafhleðslustöðvum taka á móti viðskiptavinum.

„Við sjáum gríðarleg tækifæri til framtíðar hér á Suðurnesjum og erum afar þakklát fyrir það traust sem íbúar svæðisins hafa sýnt okkur í gegnum árin. Við höfum fengið ótrúlega góðar móttökur bæði í verslun okkar og einnig hvað varðar heimsendingarþjónustuna okkar. Nú getum við, með stærri og þægilegri verslun, veitt enn hraðari, skilvirkari og betri þjónustu. Við leggjum jafnframt áherslu á ferskleika, hagstætt verð og fjölbreytt vöruúrval og hlökkum mikið til að bjóða íbúa Suðurnesja velkomna í nýju verslunina okkar,“ segir Guðrún.
Úr 1.350 fermetra verslunarrými í tæpa 2.400 fermetra
Jón Þór Kristinsson, verslunarstjóri Krónunnar við Fitjabraut er spenntur að flytja í nýtt og stærra húsnæði sem er um þúsund fermetrum stærra en fyrra rými. Stækkunin gerir Krónunni meðal annars kleift að anna aukinni eftirspurn eftir heimsendingarþjónustu á svæðinu af frekari krafti.

„Okkur hefur lengi dreymt um að komast í stærra húsnæði svo að vel fari um bæði viðskiptavini og starfsfólk. Viðskiptavinir okkar hafa beðið spenntir eftir opnun og það sama má segja um starfsfólkið okkar sem hefur síðustu daga unnið hörðum höndum að því að fylla á nýjar hillur og kæla. Við hlökkum því mikið til að hitta viðskiptavini okkar á ný í stærstu og glæsilegustu matvöruverslun Suðurnesja.“
Umhverfisvænar áherslur í takt við nýja tækni
Verslunin er Svansvottuð líkt og allar verslanir Krónunnar og verður rýmið upphitað með nýjum geislahiturum sem eru bæði umhverfisvænir og sparsamir á vatn. Sömuleiðis verður orkusparandi LED lýsing um alla verslun, auk þess sem umhverfisvænt CO2 kerfi mun keyra lokaða kæla og frysta. Þyrstir viðskiptavinir og ferðamenn geta síðan fyllt á ferskt vatn í fjölnota brúsa við Krónukranann sem staðsettur er í anddyri verslunarinnar.
Í tilefni opnunar verða ýmis tilboð í gangi dagana 23. til 25. ágúst, meðan birgðir endast. Á sama tíma verður 5% afsláttur af öllum vörum þegar notast er við Skannað og skundað í Krónuappinu.