Nýtt deiliskipulag í Dalshverfi “skipulagsslys af hálfu meirihlutans”

Deiliskipulagstillaga fyrir Dalshhverfi í Innri-Njarðvík, nánar tiltekið á svæði við nýjan grunnskóla og nýtt íþróttahús Njarðvíkinga, hefur verið endurskoðuð og lögð fram að nýju í breyttri mynd, eins og greint var frá á Suðurnes.net á dögunum.
Tillagan sem áður var lögð fram fékk falleinkunn hjá íbúum í hverfinu og var mótmælt harðlega. Tilagan sem lögð er fram nú fær aftur á móti falleinkunn hjá bæjarfulltrúa Umbótar, sem lagði fram eftirfarandi harðorða bókun vegna málsins.
„Umbót mótmælir harðlega þeirri stefnu meirihlutans að ganga sífellt á græn svæði bæjarins til að mæta eftirspurn eftir lóðum. Nú á enn á ný á að skerða grænt svæði í Dalshverfi, rétt eins og áður var reynt í hverfinu, þar sem við í Umbót mótmæltum harðlega og bókuðum sérstaklega gegn því á fundi bæjarstjórnar þann 17. desember 2024. Sú afstaða stendur óbreytt.
Við teljum að þessi nálgun sé ekki aðeins slæm hugsun heldur skipulagsslys af hálfu meirihlutans, Framsóknar, Samfylkingar og Beinna leiðar. Hún sýnir skýrt að meirihlutinn skortir bæði vilja og getu til að vinna skipulagsmál með framtíðarsýn. Það er óábyrg stjórnsýsla að fórna grænum svæðum íbúa í skammtímahagsmunum í stað þess að tryggja að nægt framboð lóða sé fyrir hendi með markvissri langtímaáætlun.
Græn svæði eru lífsgæði sem íbúar eiga rétt á. Þau eru forsenda margra sem fjárfestu í húsnæði sínu í góðri trú um að græn svæði yrðu áfram til staðar í nærumhverfinu. Í stað þess að efla þau til útivistar og samfélagslegrar notkunar er þeim fórnað af meirihlutanum.
Umbót krefst þess að horfið verði frá þessari skammtímahugsun og að farið verði í ábyrga og framsýna skipulagsvinnu sem tryggir bæði fjölbreytt framboð lóða og vernd grænna svæða sem skipta íbúa miklu máli. Við munum því sitja hjá í þessum lið.“