Nokkrir misst ökuréttindi vegna hraðaksturs við vinnusvæði

Lögregla hefur að undanförnu staðið að hraðamælingum á vinnusvæði við tvöföldun Reykjanesbrautar og sektað töluverðan fjölda ökumanna. Nokkrir ökumenn hafa misst ökuréttindin fyrir að aka á meira en tvöföldum leyfilegum hraða.
þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar, en þar er jafnframt bent á að á næstu vikum verður mikil starfsemi á vinnusvæðinu, breytingar á umferð fram og til baka og því er sérstaklega þörf á árvekni vegfarenda næstu vikur og mánuði. Þannig verður umferð hleypt á nýjan kafla meðan unnið verður á gamla kaflanum. Umferðin verður þá á einni akrein í hvora átt. Mikilvægt er að fylgja merkingum vel og virða hámarkshraða sem verður víða tekinn niður í 50 km/klst og jafnvel 30 km/klst.