Fá frístundastyrk frá fæðingu

Frístundastyrkur til allra barna frá fæðingu og til 18 ára aldurs og eldri borgara var hækkaður umtalsvert í Vogum nú um áramótin, úr 42.600 kr. í 50.000 kr. sem er rúmlega 17% hækkun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu, en þar segir að fáheyrt sé að styrkurinn sé veittur til svo ungra barna. Algengast að um sé að ræða styrk frá fimm til sex ára aldurs en bæjarstjórn sveitarfélagsins telur mikilvægt að foreldrar ungra barna geti nýtt sér slíkan styrk sem lið í heilsusamlegu uppeldi barna sinna enda Sveitarfélagið Vogar heilsueflandi og barnvænt samfélag.
Þá er styrkur til eldri borgara sama upphæð og þar á hið sama við að einungis sum sveitarfélög gera svo vel við sitt besta fólk, segir í tilkynningunni. Frístundastyrkur fyrir eldri borgara er að sama skapi hluti af lýðheilsu- og heilsueflandi stefnu sveitarfélagsins til að hvetja eldri borgara til virkni og þátttöku í skipulögðu frístunda- og íþróttastarfi.
Frístundastyrkur er árlegur styrkur sem sveitarfélög veita til að styðja þátttöku barna og ungs fólks í skipulögðu íþrótta-, tómstunda-, list- eða félagsstarfi. Styrkurinn er ætlaður til niðurgreiðslu á þátttökugjöldum hjá viðurkenndum aðilum og er ekki greiddur út sem reiðufé heldur dreginn frá gjöldum við skráningu í viðurkennda starfsemi.
Frístundastyrkur stuðlar að félagslegu jafnrétti, því hann gerir börnum, ungmennum og eldri borgurum kleift að taka þátt í skipulögðum frístundum óháð efnahag. Stuðningurinn eykur aðgengi að heilbrigðu þróunarstarfi, eflir líkamlega og félagslega vellíðan og styrkir fjölbreytt tómstundastarf í sveitarfélaginu.





















