Fá 200 þúsund króna sekt fyrir útivallarhráka

Knattspyrnudeild Þróttar Vogum hefur verið gert að greiða 200.000 króna sekt til KSÍ vegna vítaverðrar háttsemi áhorfanda félagsins sem fólst í því að hrækja á aðstoðardómara eftir leik félagsins gegn KFG í 2. deild karla þann 13. júní síðastliðinn.

Í greinargerð Þróttar kemur fram að viðkomandi áhorfandi hafi mætt á þrjá leiki hjá félaginu og sé ekki hluti af liðinu, sjálfboðaliðum eða stuðningsmannahópi sem mætir á flesta leiki til að styðja sitt félag. Einnig kom fram að viðkomandi tengist einum leikmanni fjölskylduböndum.

Þá vísa Þróttarar jafnframt til þess að um hafi verið að ræða heimaleik KFG og því ekki verið á þeirra valdi að grípa til aðgerða á vettvangi, en engin gæsla á leiknum og til þess vísað að framkvæmd og öryggi leiksins sé á ábyrgð heimaliðs skv. reglum KSÍ.

Þá kveðst Þróttur leggja áherslu á umgjörð og öryggi á heimaleikjum sínum og að atvik sem þetta gæti ekki átt sér stað á þeirra heimavelli. Með vísan til þessa segja Þróttarar að það sé ósanngjarnt að félagið sæti sekt vegna aðila sem ekki var vitað hver var, var ekki undir þeirra stjórn og tengist félaginu
hvorki skipulagslega né beint.

Þá benda þróttarar á að málið hafi fengið umfjöllun í fjölmiðlum sem hafi haft í för með sér neikvæð áhrif á orðspor félagsins.

Þrátt fyrir ofangreind rök var refsing Þróttar staðfest af dómnum og þarf félagið því að greiða 200 þúsund krónur í sekt.