Eigendur altjónaðra fasteigna geta tekið þátt í niðurrifsverkefni

Grindavíkurbær hefur, í samstarfi við Consensa og Verkfræðistofu Suðurnesja, auglýst eftir verktökum til að taka þátt í niðurrifi altjónshúsa innan Grindavíkur í gegnum rammasamning. Vill Grindavíkurbær upplýsa alla eigendur altjónaðra fasteigna um að þeim stendur til boða að taka þátt í niðurrifsverkefni sem Grindavíkurbær leiðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins, en þar segir að tilgangur rammasamnings um niðurrif sé að með einföldum hætti, sem uppfyllir kröfur laga um opinber innkaup nr. 120/2016, sé hægt að óska eftir tilboðum í niðurrif fasteigna. Markmið með þessu verkefni er að fá eins hagstæð tilboð í niðurrif og mögulegt er.

Í endurreisn Grindavíkur er mikilvægt að rífa þau hús sem hafa altjónast. Niðurrif er jafnframt forsenda þess að sprunguviðgerðir geti farið fram innan þeirra svæða sem altjónshús standa og græða sár sem óhjákvæmilega sjást á þessum svæðum, segir í tilkynningunni.

Grindavíkurbær hefur sent öllum eigendum altjónshúsa bréf þar sem þeim er boðin þátttaka í verkefninu. Er litið svo á að það sé sameiginlegt hagsmunamál sveitarfélagsins og húseigenda að ljúka niðurrifi. Langur dráttur á þessu verkefni getur verið kostnaðarsamur fyrir húseigendur þegar horft er til þess að eftirstöðvar niðurrifsbóta hjá NTÍ eru vaxtalausar frá tjónsdegi.