Bílastæðasjóður í startholunum – Sektir á bíla sem lagt er þar sem óheimilt er að leggja

Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leiti en því að á henni eru bílar

Það styttist í að Bílastæðasjóður Reykjanesbæjar verði stofnaður, en stofnun sjóðsins hefur verið rædd í bæjarráði undanfarin misseri, meðal annars á fundi ráðsins þann 18. september síðastliðinn og þá varðandi afmarkað verkefni sjóðsins.

Í svari við fyrirspurn Suðurnes.net varðandi umrætt afmarkaða verkefni sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, að með stofnun Bílastæðasjóðs yrði meðal annars hægt að sekta bíla sem leggja ólöglega þar sem óheimilt er að leggja.

Kjartan Már sagði að þau svæði verði merkt sérstaklega og er þeirri heimild meðal annars beint að þeim bílum flugfarþega sem lagt er hingað og þangað um sveitarfélagið.

Lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs sveitarfélagsins var falið að vinna málið áfram á síðasta fundi bæjarráðs.