Apótekari og bakari ekki hrifnir af breytingum á akstursstefnum Hólagötu

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanebæjar hefur samþykkt breytingu á akstursfyrirkomulagi um Hólagötu, en íbúar við götuna sendu á dögunum erindi með ósk um hraðatakmarkandi aðgerðir vegna mikils gegnumaksturs um götuna þegar bílstjórar stytta sér leið þegar umferð um Njarðarbraut er þung. Í tillögunni var meðal annars gert ráð fyrir lokun götunnar fyrir miðju, eða til móts við Reykjanesapótek.
Tillagan var send í grenndarkynningu þar sem flestir íbúar við götuna tóku tillögunni fagnandi. Það sama er hinsvegar ekki hægt að segja um fyrirtækjaeigendur, en Reykjanesapótek og Kökulist sendu frá sér sameiginlega athugasemd, þar sem fram kom að lokun götunnar myndi valda umferðaröngþveiti, mögulega slysahættu og skerða þjónustustig fyrirtækjanna.
Samkvæmt fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs virðist sem ráðið hafi þó einungis samþykkt breytingu á akstursstefnum um götuna.
Þá kemur fram í fundargerð að ákvörðunin verði endurmetin með tilliti til umferðarflæðis og -hraða vorið 2026.
Á myndinni má sjá þær breytingar sem íbúar óskuðu eftir, en þar er meðal annars gert ráð fyrir lokun götunnar til móts við Reykjanesapótek.
