Nýjast á Local Suðurnes

Aðgerðaráætlun virkjuð í Suðurnesjabæ – Starfsfólki skipt í hópa

Samkvæmt aðgerðaáætlun Suðurnesjabæjar um órofna starfsemi og þjónustu vegna COVID-19 smithættu verða breytingar á starfsemi og aðgengi að ráðhúsum Suðurnesjabæja. Eftirfarandi gildir frá og með mánudeginum 16. mars 2020.

Starfsfólki ráðhúsanna er skipt í þrjá hópa og hefur hver starfsmannahópur sína starfsstöð. Starfsstöðvar verða í ráðhúsunum í Garði og Sandgerði og í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Þessi ráðstöfun er til að rjúfa smitleiðir milli starfsfólks og með það að markmiði að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins haldist órofin.

Afgreiðslur ráðhúsanna í Garði og Sandgerði verða opnar virka daga frá kl. 11:00 – 13:00 og gildir það í óákveðinn tíma. Opnunartímar geta breyst með stuttum fyrirvara og verða breytingar auglýstar ef til kemur. Starfsstöðin í Samkomuhúsinu er einungis hugsuð fyrir vinnuaðstöðu eins og staðan er í dag og mun hluti starfsfólks ráðhúsanna sinna sínum störfum og verkefnum með fjarvinnslu og vinnu heima fyrir.

Íbúar Suðurnesjabæjar og aðrir þeir sem þurfa að vera í sambandi við starfsfólk í ráðhúsum Suðurnesjabæjar eru hvattir til að hafa samband í síma 425-3000, eða með tölvupóstum í afgreidsla@sudurnesjabaer.is. Starfsfólk í afgreiðslu mun leiðbeina og leitast við að leysa úr þeim málum sem um er að ræða í hverju tilviki.

Framangreindar ráðstafanir eru í þeim tilgangi að draga sem mest úr smithættu og til að tryggja sem best að starfsemi og þjónusta haldist órofin. Suðurnesjabæjar biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar ráðstafanir kunna að fela í sér og hvetur íbúa sveitarfélagsins og landsmenn alla til að sýna samstöðu og lágmarka hættuna á dreifingu á smiti.