Skora á Isavia að fella niður gjöld eftir gjaldþrot Lagningar

Neytendasamtökin og Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hafa skorað á Isavia að fella innheimtu gjalda niður gagnvart eigendum ökutækja sem lagt hefur verið í stæði við Keflavíkurflugvöll, þegar fyrir liggur að eigandi hafi afhent ökutækið þriðja aðila, svo sem Lagningu, til umráða. Lagning, sem rak bílastæðaþjónustu fyrir flugfarþega tilkynnti nýlega um gjaldþrot.

Félögin tvö hafa fengið fjölda kvartana frá félagsmönnum vegna bílastæðagjalda sem ISAVIA innheimtir á Keflavíkurflugvelli af bíleigendum sem þegar hafa greitt Lagningu fyrir bílastæði. Að mati FÍB og Neytendasamtakanna er þessi innheimta ISAVIA ólögmæt.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu hvar Neytendasamtökin og FÍB benda ökumönnum sem fá kröfur frá ISAVIA að fara fram á niðurfellingu þeirra, til dæmis með því að fylla út formið hér.

Hægt er að notast við eftirfarandi texta: 
„Ég óska eftir því að reikningur ISAVIA nr. XXXX verði felldur niður enda var bifreið mín nr XX XXXX í umsjón Lagningar ehf. Vinsamlega beinið kröfum ykkar til þeirra.“

FÍB og Neytendasamtökin munu standa þétt að baki sínum félögum og aðstoða við að ná fram rétti sínum. Því óska samtökin eftir að fá upplýsingar, bregðist Isavia ekki við kröfum um niðurfellingu, segir í tilkynningunni.