Sameining Samkaupa og Atlögu ehf. hefur tekið gildi

Sameining Samkaupa og Atlögu ehf. hefur tekið gildi og félögin verða hluti af nýstofnuðu samstæðufélagi, Drangar hf. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Skel fjárfestingafélagi.
Í kjölfar samrunans afhentu fyrrum hluthafar Samkaupa 98,6% hlut í félaginu gegn afhendingu á 582,5 milljónum hluta í Dröngum, sem jafngildir 28,7% hlutafjár í félaginu.
Drangar hf. taka formlega yfir hlutafé í Samkaupum, Orkunni og Lyfjavali og verða þar með móðurfélag samstæðu sem mun halda utan um öll þessi félög. Samtals nam veltan innan þessara fyrirtækja um 75 milljörðum króna árið 2024.
Í stjórn Dranga hf. sitja Jón Ásgeir Jóhannesson (stjórnarformaður), Magnús Ingi Einarsson, Liv Bergþórsdóttir, Garðar Newman og Margrét Guðnadóttir.
Forstjóri verður Auður Daníelsdóttir, sem jafnframt heldur áfram sem forstjóri Orkunnar.
Helstu hluthafar Dranga verða:
- SKEL fjárfestingafélag hf. – 68,3%
- Kaupfélag Suðurnesja svf. – 15,0%
- Birta lífeyrissjóður – 5,3%
- Festa lífeyrissjóður – 2,9%
- Kaupfélag Borgfirðinga svf. – 2,8%
- Norvik hf. – 2,5%