Nýjast á Local Suðurnes

Í sóttkví eftir Ítalíuferð – “Frábrugðið að þurfa að halda fjárlægð frá sjö ára dótturinni”

Dagurinn gengur sinn vanagang hjá þeim Böðvari Jónssyni og Jónu Hrefnu Bergsteinsdóttur, þrátt fyrir að þau sæti nú sóttkví eftir að hafa verið í skíðaferð í Madonna á Ítalíu. Þau þurftu þó ekki að sæta sóttkví strax við komuna til landsins en höfðu þrátt fyrir það tekið þá ákvörðun fyrir brottför hingað til lands mæta ekki á mannamót sem höfðu verið skipulögð.

Böðvar og Jóna Hrefna hafa bæði farið í skimun fyrir veirunni og fengið neikvæða niðurstöðu sem þýðir að hún greinist ekki í þeim, að minnsta kosti ekki sem stendur, en þau þurfa engu að síður að ljúka 14 dögum í sóttkví þar sem veiran getur komið fram hvenær sem er á þeim tíma.

Þrátt fyrir að dagurinn gangi nokkurn veginn sinn vanagang og að þau geti bæði sinnt störfum sínum heima í fjarvinnu þá segja þau Böðvar og Jóna Hrefna það helst vera frábrugðið að þurfa að halda ákveðinni fjárlægð frá sjö ára dóttur sinni, sem er ekkert sérstaklega sátt við að fá ekki knús og kossa frá mömmu og pabba.

“Það er vissulega nokkuð sérstakt að vera í sóttkví en dagurinn gengur samt sinn vanagang. Við hjónin getum bæði unnið heima í fjarvinnu og því byrjar dagurinn eins og venjulega að því frátöldu að við förum ekki á vinnustaðinn sjálfan. Þetta kallar því á fleiri símtöl og samskipti á netmiðlum, símafundi og aðeins öðruvísi skipulagningu en að öðru leyti ganga hlutirnir vel upp.”

“Það sem er frábrugðið er að við þurfum að halda ákveðinni fjarlægð frá 7 ára dóttur okkar sem er ekkert sérstaklega sátt við að mamma og pabbi geti ekki knúsað hana eins og venjulega. Við erum þó svo ótrúlega lánsöm að amma hennar er hér hjá okkur og getur séð um alla þætti sem þarfnast nándar og snertingar.” Segja þau Böðvar og Jóna Hrefna. “Við búum líka svo vel að vera í stóru húsi svo að við getum aðskilið okkur vel frá þeim tveimur, dótturinni og ömmunni, sem eru ekki í sóttkví, haft aðskilin baðherbergi, svefnherbergi og þess háttar.” Þá segja þau marga hafa haft samband og boðist til að fara í búð og sinna öðrum snúningum.

Aðspurð um hvernig útiveru, hreyfingu og samneyti við annað fólk sé háttað segjast þau passa upp á að viðra sig með því að fara í göngutúra, en gæta þess að eiga ekki í samskiptum við aðra. Þá tóku þau ákörðun um að sleppa öllum mannfögnuðum sem höfðu verið skipulagðir áður en þau héldu frá Ítalíu.

“Við förum í göngutúra og viðrum okkur en gætum þess að eiga ekki í beinum samskiptum við aðra. Þrátt fyrir að við höfum ekki verið sett í sóttkví fyrr en daginn eftir að við komum til landsins tókum við sem betur fer þá ákvörðun sjálf, daginn áður en við héldum heim, að sleppa öllum mannamótum sem höfðu verið skipulögð, bæði á laugardag og sunnudag.”