Nýjast á Local Suðurnes

Hafa áhyggjur af aðgengi íbúa að heilsugæslulæknum

Velferðarráð Reykjanesbæjar lýsir yfir áhyggjum af aðgengi íbúa að heilsugæslulæknum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en málið var rætt á síðasta fundi ráðsins. Í fundargerð kemur fram að umræða um manneklu og fjárskort sem virðist vera á HSS hafi verið í sviðsljósinu undanfarin misseri og vill velferðarráð fá upplýsingar um stöðuna eins og hún er um þessar mundir.

Í fundargerðinni kemur einnig fram að íbúar á Suðurnesjum hafi um nokkurt skeið lýst yfir neikvæðri reynslu sinni af stofnuninni sem felst meðal annars í því að löng bið er eftir síma- og læknatímum og virðist staðan vera sú að íbúum sé bent á læknavaktina utan dagvinnutíma.

Íbúar Reykjanesbæjar og Suðurnesjamenn allir eiga rétt á góðri þjónustu. Heyrst hefur að rúmlega 4.000 íbúar á Suðurnesjum leiti sér læknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem er áhyggjuefni ef satt reynist, segir jafnframt í fundargerðinni. Velferðarráð mun fylgja málinu eftir með fyrirspurn til framkvæmdastjórnar HSS og óska eftir svörum sem allra fyrst.